Mikil veðurblíða er á Norðurlandi og mælist hiti á Akureyri tæp 20 stig. „Ég myndi segja að þetta sé óvenjulegt, að það sé svona hlýtt komið fram í september. Þetta er alveg sérstakt,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar segir að eftir daginn í dag muni mestu hlýindunum ljúka. „Það verður samt sem áður áfram hlýtt í lofti. Það eru mildir septemberdagar framundan með ríkjandi suðlægum og suðaustlægum áttum.“
Mbl.is sló á þráðinn til Skapta Hallgrímssonar, blaðamanns Morgunblaðsins sem búsettur er á Akureyri. Hann var staddur úti í garði að saga niður runna og mála girðinguna. „Það er fullheitt til að vera í þessu. Það er æðislegt veður og sunnangola og eflaust hátt í 20 stiga hiti. Nú eru nokkur ský á himni en sólin skín skært.“
Skapti segir að veðrið á Akureyri hafi verið gott fyrripart sumars en um miðbik sumars hafi tekið að kólna verulega og jafnvel verið hálfkalt. Hann samsinnir því að nú sé verið að bæta Akureyringum upp þennan leiðinlega seinnipart. „Þetta er verðskuldaður sumarauki!“