Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, segist í grunninn vera andvígur þeirri hugmynd að rýmka rannsóknarheimildir lögreglunnar líkt og fráfarandi dómsmálaráðherra Ragna Árnadóttir hefur lagt til. Hann segist hafa verið á móti því að níumenningarnir sem eru ákærðir fyrir árás á Alþingi en slíkt mál er rekið fyrir dómstólum.
Ögmundur var gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils í dag. Ögmundur sagðist hins vegar greina á milli skoðunar sinnar á þeim tíma sem ákveðið var að kæra níumenningar og starfi sínu sem dómsmálaráðherra. Hann sjái ekki hvernig hann ætti sem dómsmálaráðherra að hafa afskipti að málinu.
Hann ætlar sem dómsmála- og mannréttindaráðherra, skoða málefni innflytjenda en nánast vonlaust er fyrir aðra en íbúa á EES-svæðinu að fá hér atvinnuleyfi.
Ögmundur segist telja að aðkoma Evu Joly að rannsókn sérstaks saksóknara hafi verið gríðarlega mikilvæg. Hann segist hafa trú á því að Joly muni skila skýrslu um sína aðkomu að rannsókninni og að hann sé sammála Joly um að rannsóknin sé í góðum höndum embættis sérstaks saksóknara.
Er andvígari ESB en áður
Hann ætlar að gera það sama og hann gerði sumarið 2009, að greiða atkvæði með viðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram. Hann vill hins vegar að rætt verði hvort viðræðuferlið sé að breytast í aðlögunarferli. Ögmundur segist hins vegar vera andvígari aðild að ESB nú en áður.