Myntkarfan fyrir dóm á morgun

Seðlakistill eða eins konar myntkarfa.
Seðlakistill eða eins konar myntkarfa. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Mál sem varðar bílalán sem gengistryggt var með ólögmætum hætti, svokallað myntkörfulán, og Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í að lánsféð skyldi bera óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands í stað samningsvaxta verður flutt fyrir Hæstarétti klukkan níu í fyrramálið.

Hæstiréttur kvað í júní upp tvo dóma um að gengistrygging lánsfjár í íslenskum krónum stæðist ekki lög. Þar sem lánveitendur gerðu ekki kröfu um breytingu á lánasamningunum tók rétturinn ekki afstöðu til þess hvort eða hvernig skyldi gera lánin upp.

Er því ekki deilt um það í málunum hvort gengistryggingin skuli standa heldur hvernig skuli gera upp lánin og reikna eftirstöðvar þess eða ofgreiðslu. Niðurstaða héraðsdóms var fyrsti dómurinn sem kveður á um þetta. Er lokadóms Hæstaréttar í málinu því beðið með óþreyju.

Dómarar í málinu eru Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Samkvæmt lögum um dómstóla skulu þrír eða fimm dómarar taka þátt í meðferð máls fyrir Hæstarétti en í serstaklega mikilvægum málum er heimild til þess að dómarar í máli séu sjö. Hefur sú heimild sjaldan verið nýtt.

Samkvæmt lögum um meðferð einkamála skal kveða upp dóm í máli fyrir Hæstarétti eins fljótt og kostur er og ekki seinna en fjórum vikum eftir að mál er dómtekið.

Óvissa um lokauppgjör lánanna

Mikill titringur hefur verið í samfélaginu á undanförnum mánuðum vegna dómanna og framgöngu stjórnvalda og fjármögnunarfyrirtækja. Fyrirtækin hættu öll að senda út greiðsluseðla og báru við óvissu um hvernig reikna skyldi afborganir og eftirstöðvar.

Töldu allflestir lögfróðir menn sem Mbl.is, Morgunblaðið og aðrir fjölmiðlar ræddu við að kjölfar dóms Hæstaréttar ætti að endurreikna lánin miðað við óverðtryggt lán með samningsvöxtum þar til dómstólar hefðu fengið tækifæri til að taka nánari afstöðu til þess.

Mikil óánægja greip um sig þegar Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlit ríkisins sendu frá sér tilmæli þess efnis að gera skyldi upp lánin miðað skal við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabankans á hverjum tíma í stað umsaminna vaxta eða verðtryggingu og lægstu verðtryggðu vexti. Þrátt fyrir að fólki, sér í lagi skuldurum og þeir sem töldu sig tala fyrir þá, hugnaðist þetta ekki leiddu tilmælin til mun betri greiðsluskilmála en upphaflegir samningskilmálar um gengistryggingu gerðu.

Niðurstaða héraðsdóms var ekki ósvipuð tilmælunum og kvað á um að miða skyldi við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabankans hverju sinni. Var þessi leið valin frekar en að miða við verðtryggingu og vexti samkvæmt því þar sem það væri hagfelldara fyrir lánþega. Var þetta stutt rökum um neytendaverndarsjónarmið.

Lögmaður skuldara í málinu taldi að niðurstaðan væri ekki studd nægilega góðum lagarökum.

Miklir hagsmunir í húfi

Fyrir lánþega og lánveitendur eru miklir hagsmunir í húfi en verði dómur héraðsdóms Reykjavíkur staðfestur þýðir það að vaxtagreiðslur verða fjórfalt hærri en ef upphafleg vaxtaákvæði, miðað við gengistryggingu, segja til um. Sú niðurstaða yrði þó langtum hagfelldari skuldara en ef gengistrygging hefði staðið óhögguð.

Hagsmunir efnahagskerfisins í heild eru einnig verulegir en stóru bankarnir veittu gengistryggð lán á sínum tíma. Því hefur verið haldið fram að þeir myndu hreinlega ekki þola höggið sem fylgdi því að hinir lágu samningsvextir stæðu án gengistryggingar og þeir myndu hrynja að nýju.

Aðilar gerðu ítrustu kröfur í héraði

Í málinu sem sem í fyrramálið fer fyrir Hæstarétt krafðist skuldari þess að farið yrði eftir vaxtaákvæðum upphaflegs samnings, vextir yrðu 4,34% eða breytilegir LIBOR-millibankavextir auk 2,9% álags. Byggði lánþegi á því að dómar Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar íslensks lánsfjár fælu aðeins í sér að ákvæði um gengistryggingu skyldi niður falla en samningur skyldi að öðru leyti standa óhaggaður.

Kvaðst lánþegi einnig hafa greitt það sem honum bæri að greiða. Taldi dómari að ekki hefði verið sýnt fram á það.

Í aðalkröfu Lýsingar var þess krafist að lánsfjárhæðin yrði verðtryggð og bæri að auki vexti samkvæmt gjaldskrá Lýsingar á hverjum tíma. Var krafan byggð á því að ætlunin hefði frá upphafi verið að tengja lánsfjárhæðina ákveðinni vísitölu. Eðlilegt væri því að lögmæt verðtrygging kæmi í stað gengistryggingar.

Ekki liggur fyrir hverjar kröfur aðilar á morgun verða en líklegt er að þær verði hinar sömu og fyrir héraðsdómi.
Sigurmar K. Albertsson, lögmaður Lýsingar ræðir við fjölmiðla eftir uppkvaðningu …
Sigurmar K. Albertsson, lögmaður Lýsingar ræðir við fjölmiðla eftir uppkvaðningu Hæstaréttardómanna. Ernir Eyjólfsson
Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell
Tilmæli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins kynnt.
Tilmæli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins kynnt. Eggert Jóhannesson
Tilmælum Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins mótmælt.
Tilmælum Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins mótmælt. Ómar Óskarsson
Hæstiréttur tekur málið fyrir á morgun.
Hæstiréttur tekur málið fyrir á morgun. mbl.is
Málið sem nú fer fyrir dóm varðar bílalán en niðurstaðan …
Málið sem nú fer fyrir dóm varðar bílalán en niðurstaðan gæti varðað öll gengistryggð lán. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka