40.000 heimili í járnum

Frá útifundi Hagsmunasamtaka heimilanna á Austurvelli.
Frá útifundi Hagsmunasamtaka heimilanna á Austurvelli. Kristinn Ingvarsson

„Það liggur ljóst fyrir að það er kominn gríðarlegur verðbólguþrýstingur ef menn styrkja ekki gengið,“ segir Friðrik O. Friðriksson, framkvæmdastjóri Hagsmunasamtaka heimilanna. Friðrik segir heimilisbókhald um 40.000 heimila í járnum og að ríkið verði að grípa til aðgerða fyrir áramót.

„Staða neytenda hefur verið að versna mjög hratt. Skuldavandi einstaklinga með verðtryggðar skuldir er mjög vanmetinn. Skuldavandinn hefur verið að aukast jafnt og þétt. Það er ekki komið að því að þeir sem eiga í skuldavanda séu að missa húsnæði sitt um næstu áramót en staða þeirra er orðin þannig að gríðarlegur fjöldi fólks, um 40.000 heimili, er í járnum. Það þýðir að þá er fólk farið að safna meiri skuldum en tekjum. Spurningin er þá hver forðinn er. Þetta er mjög alvarleg staða.

Það sem skortir af hálfu stjórnvalda er að koma í veg fyrir að fleiri sogist inn á þetta færiband sem heitir sérstakar skuldalausnir. Það er ekkert sem stjórnvöld hafa gert til þessa sem mun forða því.

Það þarf að leiðrétta þann forsendubrest sem lántakar urðu fyrir. Síðan þarf að koma lánskjörunum í það horf að fólk hætti að safna stöðugt skuldum [...] Það mun skipta sköpum hvernig okkur tekst að vinna úr haustinu. Fyrir áramót þurfa að liggja fyrir áætlanir og ákvarðanir um hvernig verði undið verði ofan af þessari stöðu.“

Að mati Friðriks hefur ríkið ekki mikinn tíma til að grípa inn í skuldamál einstaklinga og fjölskyldna en hann kveðst aðspurður vera þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin hafi ekki gert nógu mikið fyrir skuldsetta einstaklinga. Kreppunni sé ekki lokið.

Friðrik segir lítinn tíma til stefnu. Grípi ríkið ekki til aðgerða muni fara í hönd vítahringur aukinnar skuldsetningar og verðbólguþrýstings sem aftur muni draga úr kaupmætti einstaklinga og þar með úr neyslu innanlands, sem aftur dragi úr skatttekjum ríkisins.

Ábyrgðinni velt yfir á fyrirtækin 

Friðrik víkur einnig að gengi krónunnar en hann er þeirrar skoðunar að þeir sem fari með stjórn peningamála beri ábyrgð á lágu gengi hennar. Skuldsett fyrirtæki geti ekki komist hjá því að hækka gjaldskrár til að eiga fyrir afborgunum erlendra lána. 

„Bolabrögðin eru þau að það er verið að velta ábyrgðinni yfir á þá sem stýra gjaldskránum. Það er verið að búa til verðbólgu og það getur ekki verið góð lausn. Það þýðir að til lengri tíma munum við búa við gríðarlegan óstöðugleika og hátt innflutningsverðlag og það mun snúa allri viðskiptasögunni við.

Þá förum við aftur að flytja inn hráefni og til dæmis fara að smíða húsgögn, sauma föt og annað fyrir innanlandsmarkað, af því að við höfum ekki ráð á að flytja slíkar vörur inn.“

Bankarnir hygla vildarvinum

Friðrik telur aðspurður að kyrrstöðusamningur Arion banka við Gaum sé til vitnis um að tvær þjóðir séu í landinu þegar skuldauppjör er annars vegar. 

„Það virðist vera þannig að það hafi verið sérvalinn hópur manna sem hafði sérstakt aðgengi að lánsfé og þá bæði lánsforminu og lánstímanum. Nú þegar menn standa frammi fyrir brostnum forsendum get ég ekki séð annað en að það sé töluvert annað viðmót hjá þessum aðilum en hjá almennum neytendum.

Þess vegna get ég tekið undir með Þór Saari um að það er margt sem bendir til að í þessu uppgjörsferli séu menn enn þá að hygla vildarvinum,“ segir Friðrik.

Friðrik O. Friðriksson, formaður stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna.
Friðrik O. Friðriksson, formaður stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert