Dýpkunarskip bíður færis

Perlan í Landeyjahöfn snemma í vor. Vestmannaeyjar í baksýn.
Perlan í Landeyjahöfn snemma í vor. Vestmannaeyjar í baksýn. Ljósmynd/hsig

Dýpkunarskipið Perlan er í Reykjavík og fer í Landeyjarhöfn til þess að dæla sandi úr innsiglingunni um leið og veður leyfir.

Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Siglingastofnunar, segir að vegna eldgossins í Eyjafjallajökli í vor hafi mikið gosefni safnast saman og það geti borist inn í Landeyjarhöfn í óhagstæðum vindáttum. Mælingar hafi sýnt að meira sé af efninu við innsiglinguna og í höfninni en vonir hafi staðið til. Suðaustlægar áttir hafi ekki verið ríkjandi á svæðinu undanfarna áratugi en þær hafi verið það undanfarnar vikur og mánuði.

Veðrið er slæmt á svæðinu þessa stundina. Því er ekki hægt að nota mælibátinn sem annars er notaður við mælingar í höfninni. Þórhildur Elín segir að þess vegna fari Lóðsinn frá Vestmannaeyjum með starfsmann Siglingastofnunar á svæðið í dag og ættu niðurstöður mælinga hans að liggja fyrir síðdegis. 

Þórhildur segir að Siglingastofnun hafi gert ráðstafanir til þess að Perlan yrði til staðar um miðjan september en ástandið nú flýti förinni. þá bendir hún á að Landeyjarhöfn hafi verið hönnuð fyrir nýja ferju, sem risti ekki eins djúpt og Herjólfur gerir. Í kjölfar hrunsins hafi verið ákveðið að falla frá smíði nýrrar ferju og þá hafi Siglingastofnun bent á að fleiri ferðir myndu falla niður en ella.

Herjólfur í mynni Landeyjarhafnar.
Herjólfur í mynni Landeyjarhafnar. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert