Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, telur að Gaumur eigi að fara í gjaldþrotameðferð. Ótækt sé að fyrri eigendur fái að hafa aðkomu að fyrirtækinu áfram. Þór telur meðferð Arion banka í skuldauppgjöri Gaums jafnframt til marks um að tvær þjóðir séu í landinu.
„Þetta er enn eitt málið sem fyllir mig grunsemdum um það sem er að gerast á bak við tjöldin í bankakerfinu. Mér finnst mjög óeðlilegt að þetta fyrirtæki sé einfaldlega ekki sett í gjaldþrot vegna þess að það er búið að lýsa því yfir að það eigi hvort sem er ekki peninga. Það þarf að sitja þessi fyrirtæki í gjaldþrot til þess að upplýsa almennilega hvað er á bak við starfsemi þessara fyrirtækja. Það er ekki gert á meðan þau eru í þessu ferli vegna kvaða um bankaleynd.“
- Telur þú eðlilegt að fyrri eigendur fái svigrúm til að ná vopnum sínum þannig að þeir geti með einhverju móti komið að rekstrinum aftur?
„Fyrir utan þá sviðnu jörð sem þessir menn skildu eftir sig í viðskiptalífinu að þá eiga þeir ekki að hafa leyfi til að koma nálægt stjórnun eða rekstri fyrirtækja. Það er afgerandi atriði.“
- Hyggst Hreyfingin beita sér í þessu máli og öðrum sambærilegum á Alþingi?
„Við munum halda áfram að krefjast þess að þetta hrun verði gert upp og að þeir sem að voru valdir að því verði látnir bera af því skaðann en að honum verði ekki velt yfir á almenning. Með öllu svona krukki í tugmilljarðaskuldir útrásarvíkinga er samtímis verið að koma í veg fyrir að hægt sé að leiðrétta skuldir almennings.
Það er alveg greinilegt að það verið að afskrifa lán upp á milljarða, eða tugi milljarða króna, hjá völdum aðilum í bankakerfinu. Þetta hefur komið ítrekað í ljós á meðan það er ekki verið að borga upp skuldir almennings. Fólk er látið borga út í rauðan dauðann eins og það mögulega getur.“
Þór gefur ekki mikið fyrir þau svör Höskuldar Ólafssonar, bankastjóra Arion banka, að hann geti ekki upplýst nánar um eðli kyrrstöðusamningsins.
„Allt tal um bankaleynd á ekki við á Íslandi í dag í kjölfar hrunsins. Það er ekki neitt til á Íslandi sem heitir eðlilegt viðskiptaumhverfi og þar er af leiðandi er ekki er hægt að vísa til bankaleyndarákvæða og þess háttar. Þetta er arfur frá fortíðinni sem verður að leggja til hliðar á meðan verið er að gera upp hrunið,“ segir Þór Saari.