Mun Bakkafjara umlykja Eyjar?

Herjólfur siglir frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn.
Herjólfur siglir frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn. Rax / Ragnar Axelsson

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir að Bakkafjara muni þegar fram líður stundir teygja sig lengra til suðurs og að lokum umlykja Vestmannaeyjar, á sama hátt og Mýrdalssandur hefur umkringt Hjörleifshöfða.

Haraldur fjallar um Landeyjarhöfn á bloggi sínu. Hann segir þar að stundum sé stysta leiðin ekki besta leiðin.

„Það hefur verið lengi vitað að það er gífurlegur sandburður meðfram suður strönd Íslands, og einnig er mikill framburður úr Markarfljóti.  Orkustofnun áætlar til dæmis framburðinn úr Markarfljóti vera um 150.000 m3 á ári.  Siglingastofnun telur að 300 til 400 þúsund m3 berist meðfram ströndinni á þessu svæði ár hvert, en í sterkum suðvestan eða suðaustan áttum getur sandburður með ströndu verið yfir 100 þúsund m3 á mánuði.  Framburðurinn og sandburður meðfram ströndinni orsaka það að hafsbotninn rétt undan ströndinni er á sífelldri hreyfingu.  Þannig hefur til dæmis myndast margra km langt sandrif um 1000 metra undan fjörunni fyrir framan Bakkafjöru, og er dýpi niður á sandrifið um 2 til 4 metrar að jafnaði.  Við slíkar aðstæður virkar ferjuhöfnin eins og risastór trekt þar sem sandburðurinn safnast fyrir.  Þannig  breyta báðir hafnargarðarnir öllu eðlilegu flæði á sandburðinum þar sem garðarnir skaga fram í sjóinn.  Við bætist nú að framburður Markarfljóts í jökulhlaupinu í apríl 2010 var að minnsta kosti 200 þúsund m3 á einum degi!  Það má reikna með eldgosum í framtíðinni og aurburðurinn heldur áfram.  Reksturinn á þessari höfn verður því að öllum líkindum endalaus og mjög dýr barátta við náttúruöflin.  Var einhver að tala um að berjast við vindmyllur?“ spyr Haraldur.

Haraldur spyr síðan lesendur hvort þeir hafi tekið eftir því, að Bakkafjara skagar dálítið suður út í Atlantshafið, og myndar þannig syðsta tanga Íslands.  „Það er ekki tilviljun heldur eru tvær góðar og gildar ástæður fyrir því að svo er:  (a) framburður af aur úr Markarfljóti, og (b) var eða hlé sem Vestmannaeyjar mynda fyrir sunnan áttunum og orsaka þannig söfnun af aur og sandi við Bakkafjöru.

Í framtíðinni, á jarðsögulegum tíma, mun Bakkafjara teygjast enn lengra suður og að lokum umlykja Vestmannaeyjar, á sama hátt og Mýrdalssandur hefur umkringt Hjörleifshöfða og fært hann upp á þurrt land.  Þá þurfa Vestmannaeyingar ekki jarðgöng til að aka til Reykjavíkur. “

Síða Haraldar Sigurðssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert