Jón Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, spurði iðnaðarráðherra, Katrínu Júlíusdóttur, út í ýmis atriði varðandi stóriðjumál og virkjanakosti auk þess að spyrja hana út í ECA. Katrín benti þingmanninum á að málefni ECA væri ekki á borði iðnaðarráðuneytisins. Hún veitti honum þær upplýsingar sem hún hefði en benti honum á að spyrja frekar samgönguráðherra út í málið þar sem það væri á hans könnu.
Hún sagði að ekki væri mögulegt fyrir sig að svara öllum þeim fyrirspurnum sem hann lagði fyrir hana varðandi virkjanamál þar sem hún fengi einungis tvær mínútur til að svara.
Jón svaraði að bragði að ekki væri boðlegt hvernig ráðherra svaraði fyrirspurnum hans. Um mikilvæg mál sé að ræða. Meðal annars um virkjunarmál í neðri hluta Þjórsár, Norðlingaöldu, atvinnumál í Keflavík ofl.
Katrín segir neðri hluta Þjórsár sé í ferli rammaáætlunar og hún muni styðja þá niðurstöðu. Sú niðurstaða verði rædd á Alþingi. Lengra komst hún ekki í svörum sínum en kvartaði ítrekað yfir frammíköllum Jóns þegar hún var að svara honum.