Jenis av Rana, formaður Miðflokksins í Færeyjum, segist ekki ætla að sitja kvöldverðarboð lögmanns Færeyja fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, sem er í heimsókn í Færeyjum, ásamt Jónínu Leósdóttur, eiginkonu sinni.
Kaj Leo Holm Johannesen, lögmaður Færeyja, hefur m.a. boðið flokksleiðtogum til kvöldverðar á morgun í tilefni af heimsókn Jóhönnu. Jenis segir við Vágaportalinn, að heimsókn íslenska forsætisráðherrans sé hrein ögrun þar sem hún sé ekki í samræmi við heilaga ritningu og hann myndi aldrei sitja slíkan kvöldverð.
Jenis av Rana hefur beitt sér gegn réttindum samkynhneigðra og frjálsum fóstureyðingum.