Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, telur gerlegt að halda verðbólgunni undir 2% á næstu tveimur árum. Vilhjálmur vinnur nú að undirbúningi kjaraviðræðna en hann telur eðlilegt að miða við 1-2% launahækkanir í haust, líkt og í nágrannaríkjunum. Hann óttast verðhækkanir.
Máli sínu til stuðnings bendir Vilhjálmur á Orkuveitu Reykjavíkur.
Slæm skuldastaða fyrirtækisins sé langt í frá einsdæmi á meðal íslenskra fyrirtækja en fyrirtækið kynnti sem kunnugt er nýverið mikla hækkun á verðskrá sinni sem rökstudd var með bágri fjárhagsstöðu fyrirtækisins.
Vilhjálmur telur að fleiri fyrirtæki muni fylgja í kjölfarið en tekur þó fram að koma þurfi í ljós hvernig skuldauppgjörum verði háttað.
Líkt og Orkuveitan kunni önnur fyrirtæki að grípa til verðhækkanna til að auka framlegð, sum hver til að eiga fyrir afborgunum af erlendum lánum.
Á eftir að koma fram í verðlaginu
Því sé brýnt að gengi krónunnar styrkist frekar en Vilhjálmur vill að öðru leyti ekki tjá sig um hvaða gengisvísitölu hann horfi til í því efni.
„Gengi krónunnar er mjög lágt í sögulegu samhengi og þarf að styrkjast frekar. Á meðan gengið er svona lágt eru svo mörg vandamál sem því fylgir sem eiga eftir að koma fram í verðlaginu. Það á enn ýmislegt eftir að koma inn í verðlagið sem tengist falli krónunnar.“
Með ofangreind atriði í huga kveðst Vilhjálmur óttast að hækkanirnar kunni að þrýsta verðbólgunni upp. Því sé mikilvægt að horft sé til verðbólgumarkmiða við gerð kjarasamninga í haust.