Á fundi heimilislækna í Efra Breiðholti og Mjódd í dag var samþykkt að mótmæla harðlega þeim niðurskurði, sem ráðast eigi í með sameiningu heilsugæslnanna í Efra Breiðholti og í Mjódd. Segja læknarnir að sameiningin færi gegn almannahagsmunum.
Segjast læknarnir telja, að sá búningur hagræðingar og eflingar heilsugæslunnar, sem reynt sé að færa þessa aðgerð í, sé villuljós, og að sameiningin muni hafa erfiðar faglegar afleiðingar.
„Okkur er kunnugt um, að rekstur stórra heilsugæslustöðva eins og tillögur eru gerðar um, hafi í nágrannalöndum okkar gefist verr en rekstur minni eininga og verið erfiðari að manna. Engar fjárhagslegar áætlanir liggja fyrir varðandi þessar aðgerðir og því síður upplýsingar um mögulegan sparnað en skaðleg áhrif á innara starf heilsugæslunnar eru fyrirsjáanleg," segir í ályktun frá læknunum.