Ögmundur Jónasson, nýskipaður ráðherra dóms- og mannréttindamála gagnrýndi fyrir stuttu hugmyndir forvera síns Rögnu Árnadóttur um að rýmka rannsóknarheimildir lögreglunnar og m.a. skoða forvirkar rannsóknarheimildir. Sagði hann að aðvörunarbjöllur hringdu strax við umræðuna.
Aðspurður hvort hann muni halda áfram þeirri vinnu sem Ragna Árnadóttir setti af stað, nú þegar hann hefur tekið við embættinu, sagði Ögmundur að „bremsuborðarnir væru mjög þykkir" hjá sér þegar kæmi að forvirkum rannsóknarheimildum og hann hefði enn miklar efasemdir um þær. Með forvirkum rannsóknarheimildum er átt við rannsókn á málum án þess að fyrir liggi rökstuddur grunur um refsivert athæfi, m.a. með hlerunum og annarri upplýsingaöflun, þar sem markmiðið er að koma í veg fyrir afbrot og fylgjast með atferli sem getur ógnað öryggi almennings og ríkisins.
Þrátt fyrir sínar efasemdir sagði Ögmundur þó að haldið verði áfram að kanna málin. „Ragna Árnadóttir vildi skoða allar leiðir til þess að uppræta alvarlega glæpi í okkar landi, eiturlyfjasölu, mansal og þar fram eftir götunum og hún var miklu varfærnari í orðum sínum en margir vilja vera láta," sagði Ögmundur.
Á sínum tíma benti Ragna m.a. á að í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali komi fram að í tengslum við rannsókn og kortlagningu mansalsmála hér landi og tengsl við erlenda og skipulagða brotastarfsemi, verði að meta þörf lögreglu fyrir heimildir til forvirkra rannsóknaraðgerða. Það sé á ábyrgð dómsmálaráðuneytisins.