„Það er gríðarlega mikil áhersla lögð á atvinnumálin og kaupmáttinn,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS) en framkvæmdastjórn þess fundaði í dag um undirbúning kjaraviðræðna í haust. „Fólk vill sjá launin hækka. Það eru afdráttarlausar og skýrar kröfur um það.“
Framkvæmdastjórnin fer með æðsta vald í málefnum Starfsgreinasambandsins á milli þinga. Forystumenn verkalýðsfélaganna í SGS undirbjuggu m.a. viðræðuáætlanir á fundinum í dag, sem gerðar verða við viðsemjendurna, atvinnurekendur og hið opinbera, en sú einstaka staða er uppi að öll launþegafélög og sambönd verða með lausa samninga í lok ársins.
„Þetta var fyrst og fremst undirbúnings- og skipulagsvinna en að sjálfsögðu hafa menn komið að áherslum sínum um stöðuna. Menn skynja það mjög vel í baklandinu hverjar áherslur fólksins eru,“ segir Kristján.
Sum aðildarfélög SGS eru þessa dagana að láta vinna viðhorfskannanir meðal félagsmanna sem lagðar verða til grundvallar kröfugerð félaganna í haust.