Fyrirtæki hætta við verkefni í Verne Holding

Athafnasvæði gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Athafnasvæði gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag fyrirtæki, sem ætluðu sér að koma með verkefni inn í gagnaver Verne Holding, þar á meðal IBM, séu hætt við og ástæðan sé tafir í íslenskri stjórnsýslu á að leysa tæknileg vandamál tengd virðisaukaskattsmálum. 

Sagði Ragnheiður Elín að heimamenn óttuðust að framkvæmdir muni brátt stöðvast. „Þetta yrði enn eitt áfallið þar og dæmi um að það þurfi aðeins einn lítinn staf til að breyta jákvæða hugtakinu atvinnusköpum í atvinnusköðun ríkisstjórnarinnar," sagði hún.

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að þessi athugasemd væri réttmæt. Sagði Skúli, að önnur gagnaver hefðu talað um að þetta vandamál með virðisaukaskattinn væri ein helsta hindrun í vegi fyrir því að þar gæti vaxið upp öflugur iðnaður.

Málið lítur að sögn Skúla að því, að íslensk gagnaver standa ekki jafnfætis gagnaverum í Evrópusambandinu varðandi virðisaukaskatt á netþjónum og reyndar ekki varðandi sölu á þjónustunni heldur. Fjármálaráðuneytið væri með það verkefni að leysa úr þessu. 

Ragnheiður Elín sagðist vita að Skúli deildi þeirri skoðun með henni að leysa þurfi málið. „Leysum það, við getum gert það strax eftir hádegið - fyrir  hádegið þess vegna," sagði hún. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka