Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gagnrýna, að hvorki borgarstjóri né formaður borgarráðs hafi verið viðstaddir umræðu um aðgerðaáætlun borgarinnar á fundi borgarstjórnar í dag.
Jón Gnarr, borgarstjóri, fór til Brussel eftir hádegið, til að kynna verkefnið Reykjavík-Græn borg á ráðstefnu. Fram kemur í dagbók borgarstjóra á Facebook-vefnum, að Jón ætlar að koma aftur til landsins á morgun hress fyrir borgarráðsfund á fimmtudagsmorgun.
Í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og VG segir, að að á síðasta kjörtímabili hafi náðst mikilvæg sátt um markmið og umgjörð fjárhagsáætlana í svonefndum aðgerðaáætlunarhópi borgarráðs. Í aðgerðaáætlun þeirri hafi verið skýr skilaboð til borgarbúa og starfsmanna um ákvarðanir um gjaldskrár, störf starfsmanna og grunnþjónustu.
„Nú er komið langt inn í áætlunarferli fjárhagsáætlana og lítið fer fyrir sátt, ramma eða forgangsröðunar vegna þeirra stóru verkefna sem framundan eru. Það er því afar ámælisvert að hvorki borgarstjóri né formaður borgarráðs, sem er jafnframt formaður aðgerðahópsins, séu viðstaddir þessa umræðu um stöðu aðgerðaáætlun borgarinnar og því hafi ekki verið veitt nein svör um þetta stóra mál, nema þau sem komu frá borgarfulltrúa Besta flokksins um að ekki væri hægt að útiloka skattahækkanir, gjaldskrárhækkanir eða uppsagnir," segir í bókuninni.