Farið er að bera á vöruskorti í matvöruverslunum í Vestamannaeyjum, m.a. ýmsum nauðsynjavörum á borð við mjólk og brauð. Herjólfur hefur ekki getað siglt á milli lands og Eyja í dag og er búið að aflýsa fyrirhugaðri ferð í kvöld. Hins vegar hefur verið hægt að fljúga til Vestmannaeyja í dag, skv. upplýsingum frá flugfélaginu Erni.
Ingimar Georgsson, verslunarstjóri Vöruvals, segist í samtali við mbl.is að síðasta vörusending hafi borist fyrir helgi, eða sl. föstudag.
„Mjólkurvara er að verða búin, eða er á síðustu metrunum. Hefðbundin mjólk kláraðist í gærkvöldi,“ segir hann. Það sé hins vegar nóg til af brauði.
„Þetta er farið að þynnast. Kjötvara er nánast að verða búin. Hún klárast í kvöld ef ekkert úr rætist.“
Sömu sögu er að segja í verslun Krónunnar. Þar eru helstu nauðsynjavörur á borð við mjólk og brauð að klárast, skv. upplýsingum þaðan.
Ingimar segir að eitthvað sé hægt að flytja með flugi til Eyja en ljóst sé að menn taki ekki á móti stórum mjólkursendingum nema með Herjólfi. Kostnaðurinn myndi allur hlaupa upp ef reynt yrði að fljúga með slíka sendingu.
Ingimar segist vonast til þess að Herjólfur geti farið eina ferð til þess að sækja vörur - á milli 40 og 60 tonn - sem bíði í gámi við Bakkafjöru. Það eigi þó eftir að koma í ljós. „Ef það gengur upp þá sleppum við fyrir horn. Ef það verður ekki farið í kvöld eða í fyrramálið þá verðum við í verulegum vandræðum.“
Aðspurður segir hann íbúa vera mjög ósátta. „Þetta getur ekki orðið verra. Við höfum stundum lent í því að það sé ekki fært í tvo daga, en sjaldan að við fáum ekki vörur á mánudegi.“ Menn bindi vonir við það að það verði a.m.k. hægt að sigla til Þorlákshafnar til þess að ná í vörur enda ekki boðlegt að hafa ástandið með þessum hætti.
Herjólfur fór ekki milli lands og Eyja í gær vegna aurburðar í Landeyjahöfn. Þá hefur hann ekki heldur farið í dag vegna hvassviðris og nú síðdegis var ferð, sem til stóð að fara í kvöld, einnig aflýst.