Tvöfalt meira húsnæði byggt en þörf var á

Kárahnjúkastífla.
Kárahnjúkastífla. mbl.is/Steinunn

Í skýrslu, sem gerð hefur verið um samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi, kemur fram að stæstu mistökin í tengslum við framkvæmdirnar virðist hafa verið gerð á sviði húsnæðismála. Byggðir voru 135 þúsund fermetrar af húsnæði en spár gerðu ráð fyrir að þörfin væri 75-80 þúsund fermetrar. 

Verð á húsnæði hækkaði mikið í byrjun framkvæmdatímans við Kárahnjúka en hækkunin gekk að mestu til baka í byrjun rekstrartíma virkjunarinnar og álversins í Reyðarfirði. Í október 2009 stóðu 218 íbúðir auðar á miðsvæðinu, mest í fjölbýli en einkum var of mikið byggt af þeirri tegund húsnæðis.

Þá segir í skýrslunni, sem unnin var á vegum  Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, að aukið samráð sveitarfélaga í skipulagsmálum í tengslum við framkvæmdir sem þessar sé æskilegt.  Tækifæri til að skipuleggja betur byggð bæjanna, sem uxu hvað mest á framkvæmdatímanum, virðist hafa glatast.

Í skýrslunni kemur fram, að grunngerð samfélagsins styrktist mjög á framkvæmdatímanum og megi þar einkum nefna nýja útflutningshöfn sem sé önnur stærsta á landinu og nýja vegi. 

Þá hafi tekjur sveitarfélaga hækkað mikið en afkoma þeirra sé hins vegar ekki í samræmi við það. Þegar dró úr framkvæmdum lækkuðu tekjur
Fljótsdalshéraðs en tekjur Fjarðabyggðar halda áfram að hækka. Efnahagsáfall þjóðarinnar árið 2008 hafi komið illa við þau líkt og mörg önnur sveitarfélög. Bæði sveitarfélögin hafi hins vegar framkvæmt mikið, m.a. þar sem þau virðist hafa verið að keppa um nýja íbúa og starfsemi. 

Í skýrslunni kemur einnig fram, að þátttaka kvenna í starfsemi álversins í Reyðarfirði hafi verið mikil og umtalsvert meiri en í hinum álverunum hér á landi, raunar sú mesta í álverum Alcoa. En hlutfallsleg stærð fyrirtækisins valdi því, að það hafi mikil áhrif á taktinn í samfélaginu. Margt bendi til að 12 tíma vaktakerfi álversins henti illa ákveðnum hópum starfsmanna, einkum barnafólki. 

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert