Jenis ætti að skammast sím

Høgni Hoydal.
Høgni Hoydal.

Høgni Hoydal, formaður Þjóðveldisins í Færeyjum, segir að Jenis av Rana ætti að skammast sín fyrir að lýsa því yfir að hann ætli ekki að mæta í kvöldverðarboð í kvöld til heiðurs Jóhönnu Sigurðardóttir vegna þess að íslenski forsætisráðherrann væri samkynhneigður.

Jóhanna kom í heimsókn til Færeyja í gærkvöldi ásamt Jónínu Leósdóttur, eiginkonu sinni. Haft var eftir Jenis í gær, að heimsókn Jóhönnu væri hrein ögrun við heilaga ritningu.

Haft er eftir Høgna Hoydal á vefnum portal.fo í dag, að óskiljanleg afstaða Jenis endurspegli á engan hátt afstöðu stjórnmálamanna eða færeysku þjóðarinnar.  Sjálfur líti hann á það sem mikinn heiður, að Jóhanna skuli koma í opinbera heimsókn til Færeyja ásamt Jónínu. 

„Íslendingar eru eina sjálfstæða ríki heims, sem án fordóma býður færeyskum fulltrúum í heimsóknir til Íslands og tekur á móti okkur eins og jafningjum. Með sama hætti sýna íslenskir forsætisráðherrar, forsetar, ráðherrar og aðrir íslenskir leiðtogar okkur þann heiður að heimsækja okkur á jafnréttisgrundvelli eins og við séum sjálfstæð þjóð. Þess vegna er það enn mótsagnarkenndara, að færeyskur stjórnmálamaður skuli opinbera fordóma sína með þessum hætti," segir Høgni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka