Kaup Framtakssjóðs Íslands á eignarhaldsfélaginu Vestia af Landsbankanum voru gagnrýnd á Alþingi í dag en málið var rætt utan dagskrár. Fjármálaráðherra sagðist hins vegar ekki eiga í neinum vandræðum með að fagna því að lífeyrissjóðirnir, sem eiga Framtakssjóðinn, leggi sitt að mörkum við endurreisn atvinnulífsins.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að stjórnendur lífeyrissjóðanna vildu nú ávaxta fé þeirra í áhættusömum atvinnurekstri og hætta væri á, að sú áhættufjárfesting komi niður á lífeyrisréttindum landsmanna síðar.
Sagði Óli Björn Kárason alveg ljóst, að kaup Framtakssjóðsins á Vestia hefði vakið tortryggni almennings og væru ekki í sátt við þjóðfélagið.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að markmið með starfsemi Framtakssjóðsins væri einfalt: Að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn atvinnulífsins í kjölfar falls fjármálalífsins.
Sagði Steingrímur, að lífeyrissjóðirnir þyrftu að koma um 100 milljörðum króna í ávöxtun á hverju ári. Því væri erfitt að mæla gegn því að sjóðirnir leggi sitt að mörkum við uppbyggingu atvinnulífsins með þessum hætti en ekki væri gert ráð fyrir að sjóðurinn yrði framtíðareigandi þeirra fyrirtækja, sem fylgdu með í kaupunum á Vestia.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að verklagsreglur varðandi viðskipti með fyrirtæki af bönkunum, hefðu verið þverbrotnar þegar Framtakssjóðurinn keypti Vestia.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist gjalda varhug við því að lífeyrissjóðum verði hleypt út í áhættufjárfestingar, þar hræddu sporin.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að enn væri verið að gera samninga í reykfylltum bakherbergjum Landsbankans. Steingrímur J. Sigfússon benti hins vegar á að Landsbankinn væri reyklaus vinnustaður.