Meiri hækkun í pípunum hjá OR?

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir að skilja megi orð Dags B. Eggertssonar, oddvita Samfylkingarinar og formanns borgarráðs, þannig á borgarstjórnarfundi í dag að hugsanlega þurfi að hækka gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur meira en um þau 28,5% sem þegar hafa verið boðuð.

Hefur Gísli Marteinn eftir Degi, að það „getur vel verið að það þurfi að taka dýpra í árina strax á næsta ári, bæði hvað varðar hagræðingu og niðurskurð og gjaldskrárhækkanir.“

Gísli Marteinn segir, að þetta séu talsverð tíðindi því hækkunin, sem ákveðin var á dögunum, hafi verið miklu meiri en flestir bjuggust við. Nú bendi  yfirlýsing Dags til þess að sú hækkun hafi aðeins verið upphafið. „Það eru slæmar fréttir fyrir borgarbúa," segir Gísli Marteinn.

Vefur Gísla Marteins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert