Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir að skilja megi orð Dags B. Eggertssonar, oddvita Samfylkingarinar og formanns borgarráðs, þannig á borgarstjórnarfundi í dag að hugsanlega þurfi að hækka gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur meira en um þau 28,5% sem þegar hafa verið boðuð.
Hefur Gísli Marteinn eftir Degi, að það „getur vel verið að það þurfi að taka dýpra í árina strax á næsta ári, bæði hvað varðar hagræðingu og niðurskurð og gjaldskrárhækkanir.“
Gísli Marteinn segir, að þetta séu talsverð tíðindi því hækkunin, sem ákveðin var á dögunum, hafi verið miklu meiri en flestir bjuggust við. Nú bendi yfirlýsing Dags til þess að sú hækkun hafi aðeins verið upphafið. „Það eru slæmar fréttir fyrir borgarbúa," segir Gísli Marteinn.