Þingmönnum var skemmt í dag þegar Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, kallaði fram í ræðu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, og sagði það fullkominn misskilning að það væri meirihlutastjórn á Alþingi.
Össur sagði raunar síðar úr ræðustóli Alþingis, að ríkisstjórnin hefði styrkst með ráðherrabreytingum í síðustu viku enda væri það yfirleitt tilgangur með uppstokkun í ríkisstjórnum. „Ég hef fulla trú á því að Ögmundur Jónasson styrki ríkisstjórnina og læt mér því jafnvel til hugar koma að ríkisstjórnin hafi hugsanlega meirihluta fyrir fjárlögunum," sagði Össur og þá hlógu þingmenn aftur.
Guðlaugur Þór hafði spurt Árna Þór Sigurðsson, þingmann VG, um þau ummæli Álfheiðar Ingadóttur, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, að með ráðherrabreytingum í síðustu viku hefði verið tryggður meirihluti fyrir fjárlögum.
Guðlaugur Þór sagðist hafa staðið í þeirri meiningu, að það væri meirihlutastjórn við völd og þá greip Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, frammí fyrir Guðlaugi og sagði að það væri fullkominn misskilningur.
Árni Þór sagði að alltaf maður í manns stað og ríkisstjórnarflokkarnir hlytu að skipa mönnum til verka með þeim hætti sem hún teldi þjóna best þeim mikilvægu verkefnum sem væri verið að vinna að hverju sinni. Ríkisstjórnin hafi verið styrkt með breytingunum nú og sé vel undir það búin að takast á við þau verkefni, sem framundan eru á næstu vikum og mánuðum.