Ólafur Ragnar í Kína

Frá fundi forseta Íslands með varaforseta Kína í morgun.
Frá fundi forseta Íslands með varaforseta Kína í morgun.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er í Kína í tilefni af þjóðardegi Íslands og íslenskri dagskrá á Heimssýningunni í Shanghai. Ræddi Ólafur Ragnar meðal annars í morgun við Xi Jinping, varaforseta Kína.

Á heimasíðu íslenska forsetaembættisins kemur fram að Xi Jinping hafi á fundinum látið í ljós afdráttarlausan vilja kínverskra yfirvalda til að efla samvinnu við Ísland, einkum á sviði jarðhitanýtingar og hreinnar orku, sem og rannsókna á jarðskjálftum og jöklum.

Hafi varaforsetinn lýst því yfir að samvinna í jarðhitaverkefnum yrði burðarás í samstarfi við Ísland á komandi árum og mikilvægt væri að íslenskir aðilar tækju þátt í að efla jarðhitanýtingu innan margra svæða og borga í Kína. 

Kínversk stjórnvöld hafa nýlega ákveðið að verja sem svarar 735 milljörðum Bandaríkjadala á næstu tíu árum til framkvæmda á sviði hreinnar orku.

Tilkynning embættis forseta Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert