Segir Færeyinga skammast sín

Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Magni Laksáfoss, þingmaður færeyska Sambandsflokksins og fyrrverandi fjármálaráðherra Færeyja, mótmælir harðlega þeim ummælum sem Jenis av Rana, leiðtoga færeyska Miðflokksins, lét hafa eftir sér um Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Laksáfoss, sem er í einkaheimsókn á Íslandi, segist ekki vita hvort rangt sé haft eftir Jenis eður ei. Sé hins vegar rétt eftir honum haft þá geti hann ekki verið meira ósammála leiðtoga Miðflokksins.

Í samtali við mbl.is segir Laksáfoss að Jenis hafi með ummælum sínum kallað skömm yfir færeysku þjóðina. „Ég er búinn að fá mikil viðbrögð frá Færeyingum. Þeir skammast sín fyrir það sem hann sagði. Og það er jafnframt mín persónulega skoðun,“ segir hann.

Laksáfoss tekur fram að meirihluti landsmanna sé ósammála Jenis. Í Færeyjum sé hins vegar fámennur hópur öfgamanna sem tjái öfgafullar skoðanir. „Þeir nota biblíuna til að gagnrýna líf annarra. Mér þykir það mjög leitt að hann hafi látið þessi ummæli falla því hann lætur það líta út fyrir að allir í Færeyjum séu öfgamenn,“ segir Laksáfoss og ítrekar að um minnihlutahóp sé að ræða.

Aðspurður segir hann að Jenis eigi að biðjast afsökunar. Hann telur hins vegar ólíklegt að það muni gerast. „Ég tel að þetta hafi ekkert með Jóhönnu að gera. Ég held að hann sé að hlúa að sínum eigin atkvæðum.“ 

Laksáfoss segir að Færeyingar vilji taka vel á móti öllum erlendum þjóðhöfðingjum. „En svo eru þessi ummælin látin falla og allir skammast sín.“

Magni Laksáfoss, þingmaður færeyska Sambandsflokksins.
Magni Laksáfoss, þingmaður færeyska Sambandsflokksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert