Tók enga ákvörðun fyrir Íbúðalánasjóð

Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra útilokar ekki lagasetningu til að bregðast við yfirvofandi dómi Hæstaréttar um myntkörfulán. Hann segir ríkisstjórnina hafa lagt drög að viðbragðsáætlun eftir því hvernig dómur fellur í málinu, ýmsir kostir hafi verið reiknaðir út án þess þó að vera nákvæmlega útfærðir enda sé ómögulegt að spá fyrir um niðurstöðu hæstaréttar.

Aðspurður um lögfræðiálit sem hann veitti Íbúðalánasjóði árið 2004, og sjóðurinn studdist við þegar tekin var ákvörðun um að endurlána bönkum yfir 100 milljarða króna, sagði Árni Páll að mat hans hefði verið rétt og það hefði Ríkisendurskoðun staðfest í skýrslu sinni árið síðar. Árni Páll varð síðar félagsmálaráðherra og fór þá með mál sjóðsins.

Í Kastljósi Sjónvarpsins í gær sagði Vilhjálmur Bjarnason lektor við Háskóla Íslands frá skýrslu sem hann hefur unnið, þar sem kemur fram að með lánunum til bankanna hafi  Íbúðalánasjóður farið fram hjá reglum um hámarkslán og skapað kjöraðstæður fyrir markað með undirmálslán. Árni Páll segist ekki hafa átt þátt í ákvörðunum um fjárfestingastefnu Íbúðalánasjóðs, hann hafi einfaldlega lagt mat á hvort sjóðurinn hefði lagaheimildir til að gera slíka samninga.

„Það er svo annarra að láta reyna á það ef menn telja að þessar heimildir hafi ekki verið fyrir hendi," sagði Árni Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert