Útjöld Íslands til skólamála hæst innan OECD

Nemendur í Háskóla Íslands
Nemendur í Háskóla Íslands mbl.is/GSH

Útgjöld Íslendinga til menntastofnana námu 7,8% af vergri landsframleiðslu árið 2007 og var Ísland í efsta sæti meðal OECD ríkja hvað þessi útgjöld varðar. Vegið meðaltal OECD ríkja var 6,2% og meðaltal ríkjanna var 5,7%. 

Þetta kemur fram í ritinu Education at a Glance 2010, OECD Indicators, sem Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hefur gefið út og Hagstofan fjallar um í dag.

Útgjöld til menntastofnana sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á Íslandi lækkuðu um 0,2% frá árinu 2006. Á Íslandi var 17,4% útgjalda hins opinbera varið til menntamála árið 2007 en að meðaltali vörðu OECD ríkin 13,3% útgjalda hins opinbera til menntamála.

Í öllum OECD ríkjunum þar sem sambærilegar tölur eru til, jukust útgjöld opinberra aðila til menntamála á árunum 2000 til 2007. Útgjöld einkaaðila til menntunar jukust þó hraðar en opinber útgjöld í meira en ¾ OECD landanna. Þrátt fyrir þessa aukningu einkaútgjalda eru 82,6% útgjalda til menntamála opinber útgjöld.

Þegar útgjöld á nemanda frá grunnskóla til háskóla eru skoðuð vörðu OECD ríkin að meðaltali 8216 bandaríkjadölum á nemanda árið 2007. Ísland varði 9015 dölum á nemanda á árinu og er í 11. sæti OECD ríkja.

Ísland varði talsvert yfir meðaltali OECD ríkja til menntunar á leikskólastigi (2. sæti) og grunnskólastigi (4. sæti á barnaskólastigi og 10. sæti á unglingastigi) en var undir meðaltali hvað varðar útgjöld á nemanda á framhaldsskólastigi (18. sæti) og á háskólastigi (20. sæti).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka