Meirihluti endurskoðunarnefndar um fiskveiðistefnuna telur rétt að gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr.
Í niðurstöðu meirihlutans segir, að samningarnir skuli m.a. fela í sér ákvæði um réttindi og skyldur samningsaðila, kröfur til þeirra sem fái slíka samninga, tímalengd og framlengingu samninga, gjaldtöku, aðilaskipti, ráðstöfun, aflahlutdeilda sem ekki eru nýttar, meðferð sjávarafla o.fl.
Einar K. Guðfinsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, segir að með þessu hafi meirihlutinn hafnað fyrningarleið og velji að fara samningaleiðina. Hér er skýrt kveðið að orði. Starfshópurinn geri það að tillögu sinni að byggt verði á aflamarks og aflahlutdeildarkerfi og að aflaheimildum sé ráðstafað með formlegum samningi til langs tíma, þar sem gert sé ráð fyrir að samningarnir verði framlengdir, nema því aðeins að um skýlaus samningsbrot verði að ræða.