Jón Gnarr segir í dagbók borgarstjóra á Facebook í kvöld, að hann ætli aldrei aftur til Brussel. „Fór út sem bjartur og glaður umhverfissinni, kem aftur sem ógeðslegur dónakall. Ég ætla aldrei aftur til Brussel!"
Jón vísar þarna væntanlega til þess að franska fréttastofan AFP sendi í nótt frá sér umfjöllun um hann og Besta flokkinn. Þar var meðal annars haft eftir Jóni, þegar hann var spurður um netvenjur sínar: „Aðallega klám."
Hafa þessi ummæli sætt gagnrýni í dag og er meðal annars bent á að, í mannréttindastefnu Reykjavíkur sé ákvæði um að fræðsluyfirvöld Reykjavík, svo og stjórnendur, skuli vinna gegn skaðlegum áhrifum klámvæðingar meðal unglinga.
Jón fór til Brussel í gær til að kynna verkefnið Reykjavík - Græn borg á ráðstefnu.