Umhverfisstofnun hefur auglýst tillögu að starfsleyfi fyrir álver Alcoa-Fjarðaáls sf. Núgildandi starfsleyfi álversins var gefið út í ársbyrjun 2007 með gildistíma til ársins 2020. Vegna straumhækkunar á kerin í álverinu og betri nýtingar, er framleiðsla fyrirtækisins þegar komin yfir leyfilegt hámark og því þörf á nýju starfsleyfi.
Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu með úrskurði 31. ágúst 2009 að framleiðsluaukning í 360.000 tonn af áli væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.
Starfsleyfistillagan gerir ráð fyrir því að heimilt sé að framleiða allt að 360.000 tonn af áli á ári í kerskálum álversins, auk reksturs tilheyrandi málmsteypu, ker- og skautsmiðju, geymslusvæða tímabundið fyrir eigin framleiðsluúrgang og þjónustu fyrir eigin starfsemi.
Við gerð tillögunnar var ítarlega farið yfir málefni varðandi losun brennisteinssambanda en nýjar upplýsingar benda til þess að losun brennisteinssambanda sé ekki öll á formi SO2, heldur einnig á formi COS. Einnig að nokkur losun á brennisteinssamböndum getur átt sér stað vegna brennisteinsinnihalds í súráli.
Umhverfisstofnun hefur brugðist við með því að taka inn í útreikning á losunarmörkum brennisteinssambanda þessa ofangreindu þætti. Vegna þessara breytinga eru losunarmörk í starfsleyfistillögunni hærri, sem nemur þessum viðbótaruppsprettum, og því ekki fyllilega sambærileg við mörkin í núgildandi starfsleyfi.
Aðrar breytingar í starfsleyfistillögunni eru minniháttar og ekki efnislegar. Rétt er þó að nefna nýjar kröfur um að halda opna kynningarfundi til að kynna umhverfismál fyrirtækisins.
Tillagan mun liggja frammi ásamt umsóknargögnum á skrifstofu Fjarðabyggðar, Hafnargötu 2, Fjarðabyggð, á tímabilinu 19. ágúst til 14. október 2010.
Tillöguna má einnig nálgast á vefsíðu Umhverfisstofnunar, www.umhverfisstofnun.is, ásamt fylgigögnum. Umsagnarfrestur um tillöguna er til 14. október 2010.
Umhverfisstofnun áformar að halda kynningarfund þann 8. september 2010, kl. 17:00, í safnaðarheimilinu á Reyðarfirði þar sem tillagan verður kynnt og að því loknu gefst fundargestum kostur á að koma með athugasemdir eða bera upp spurningar.