Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, sagði á fundi í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjarvíkur, sem nú stendur yfir, að eigendur OR ættu að skila arðgreiðslum undanfarinna ára áður en ráðist yrði í gjaldskrárhækkanir. Með þessu væri verið að skattleggja íbúa nágrannasveitarfélaga.
Á fundinum er fjöldi sveitastjórnarmanna frá sveitarfélögum sem eru á þjónustusvæði OR, fulltrúar stéttarfélaga o.fl.
Helgi Þór Ingason, forstjóri OR, svaraði ekki með beinum hætti hvað honum þætti um arðgreiðslur undanfarinna ára. Á hinn bóginn sagði hann að nú þegar staðan væri erfið ættu eigendur ekki að taka arð út úr fyrirtækinu.
Helgi lýsti erfiðri stöðu fyrirtækisins sem ekki á fyrir skuldbindingum næsta árs. Hann sagði að aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til hefðu skilað þeim árangri að lánastofnanir væru a.m.k. farnar að tala við OR.