Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tilkynnti íslenskum stjórnvöldum í dag um þá ákvörðun sína um að hefja formlega rannsókn á því hvort kaup nýju bankanna þriggja á eignum peningamarkaðssjóða við slit sjóðanna í október 2008 hafi falið í sér ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins.
Alls er um að ræða nærri 84 milljarða króna viðskipti, þar af 63 milljarðar í Landsbanka, 12,9 milljarðar í Íslandsbanka og 7,7 milljarðar króna í Arion banka, að því er kemur fram á heimasíðu ESA. Segir ESA að vafi leiki á, að þessi kaup hafi verið á viðskiptalegum forsendum.
Fjármálaráðuneytið segir á heimasíðu sinni, að það hafi í samskiptum við ESA komið því skýrt á framfæri að stjórnvöld hafi engin fyrirmæli gefið um kaup á eignunum úr sjóðunum. Í ákvörðun ESA um um formlega rannsókn felist hins vegar sú afstaða stofnunarinnar að hugsanlega hafi falist ríkisaðstoð til handa rekstrarfélögum peningamarkaðssjóðanna, í ákvörðunum nýju bankanna.
Kvörtun vegna málsins barst ESA í apríl 2009 og fjármálaráðuneytið hefur síðan þá upplýst stofnunina um hvernig kaup nýju bankanna á eignum úr peningamarkaðssjóðum bar að, hvernig eignir voru verðmetnar, o.fl. Þessara upplýsinga hefur verið aflað frá bönkunum og rekstrarfélögum peningamarkaðssjóðanna.
Segir ráðuneytið, að samkvæmt upplýsingum, sem borist hafi frá hverjum banka, hafi ákvarðanir um kaup á eignum úr sjóðunum verið teknar á viðskiptalegum forsendum. Sjóðsfélagar hafi að miklum meirihluta verið viðskiptavinir bankanna og bankarnir talið brýnt við þær aðstæður, sem ríktu í október 2008, að eyða óvissu sem uppi var um endurheimtur úr peningamarkaðssjóðum.
ESA segir hins vegar, að íslensk stjórnvöld hafi að mati stofnunarinnar ekki sýnt fram á, að bankarnir hafi tekið sjálfstæðar ákvarðanir í þessu máli án afskipta ríkisins. Ákvörðunun um að kaupa eignir peningamarkaðssjóðanna hafi verið teknar af bráðabirgðastjórnum bankanna, sem þá voru nýstofnaðir og í eigu ríkisins, nokkrum dögum eftir að stjórnirnar voru skipaðar. Allir bankarnir hafi síðan tapað verulegum fjármunum á þessum kaupum og þurft að afskrifa eignirnar.
Ráðuneytið segir, reikna megi með að niðurstaða hinnar formlegu rannsóknar ESA liggi fyrir á næsta ári. Endanleg ákvörðun ESA um hvort ríkisaðstoð hafi falist í umræddum ákvörðunum og hvort slík ríkisaðstoð teljist ólögmæt, yrði síðan kæranleg til EFTA-dómstólsins.