„Samfylkingin hleypur í hringi í sjávarútvegsmálum,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem telur mikla óvissu uppi um stefnu samfylkingarmanna í málaflokknum eftir að fyrningarleiðin var blásin af.
„Það er ómögulegt að átta sig á því hvort að sú niðurstaða sem Guðbjartur Hannesson skilaði í endurskoðunarnefndinni í sjávarútvegsmálum nýtur einhvers stuðnings í Samfylkingunni eða ekki.
Mér finnst einkennilegt, áður en málið hefur verið unnið frekar og því komið í traustan farveg, að það séu komnar fram hótanir frá ríkisstjórninni um þjóðaratkvæðagreiðslu sem er óskilgreint um hvað eigi að vera.
Mér finnst vandræðagangurinn í þessu máli ekki ríða við einteyming. Fyrst var það fyrningaleiðin. Svo leiða þau fram sátt um samningaleiðina og sú hugmynd er ekki byrjuð að kólna af pönnunni þegar því er hótað að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eða að málið verði hugsað upp á nýtt frá grunni,“ segir Bjarni.
Sundrung í stjórnarliðinu
Bjarni telur uppstokkunina í stjórnarliðinu til marks um sundrungu í ríkisstjórninni. Skeytasendingar á milli stjórnarliða séu til merkis um það.
„Við höfum fengið að heyra hvaða ráðherrar það eru sem stjórnarliðum í Samfylkingunni er í nöp við. Nú bíðum við eftir því að heyra hvaða ráðherrar í röðum Samfylkingarinnar það eru sem að þingmönnum í Vinstri grænum er sömuleiðis í nöp við. Þannig að mér finnst tilraunin til að styrkja ríkisstjórnina frekar misheppnuð,“ segir Bjarni sem vill að öðru leyti ekki tjá sig um stöðu ríkisstjórnarinnar.