Jenis fær stuðningskveðjur frá Íslandi

Jenis av Rana.
Jenis av Rana.

Jenis av Rana, leiðtogi færeyska Miðflokksins, sem olli miklu fjaðrafoki þegar hann neitaði að mæta í kvöldverðarboð til heiðurs Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í Færeyjum í gærkvöldi, hefur borist fjölmargar stuðningskveðjur frá Íslendingum. Færeyski fréttavefurinn Vágaportalurin greinir frá þessu.

Jenis segir í samtali við fréttamiðilinn að íslensk samtök, sem eru með yfir 1.000 félagsmenn, séu á meðal þeirra sem hafi sent sér stuðningskveðju. Hann vill þó ekki greina frá því um hvaða félagsskap sé að ræða. 

Fréttavefurinn óskaði eftir því að fá að sjá kveðjurnar og eru nokkrar þeirrar birtar á vefsíðu fréttamiðilsins.

Margir hrósa Jenis fyrir ákvörðun sína og ummæli.  „Takk fyrir, þú ert hetja,“ segir í einni kveðjunni, sem eru á íslensku, dönsku, ensku og færeysku.

„Guð blessi þig fyrir að setja hann í fyrsta sæti, hans orð er sannleikurinn og lífið. Við erum fleiri íslendingarnir en menn gera sér grein fyrir sem fyrirverða sig fyrir forsætisráðherrann. Guð gefi okkur kristið fólk til forystu á Íslandi og í Færeyjum. Amma mín var frá Færeyjum og ég er stoltur af því,“ segir í annarri kveðju.

Hér má lesa kveðjurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert