„Þetta er rangt hjá Baldri Helga. Það er löglegt og hefur verið það allar götur samkvæmt nýju lögunum að taka við mjólk þótt viðkomandi eigi engan kvóta og markaðsvæða hann á innanlandsmarkaði,“ segir Bjarni Bærings Bjarnason bóndi um gagnrýni Landssambands kúabænda á nýja könnun MMR.
Eins og fram hefur komið telur Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, að ný skoðanakönnun MMR um afstöðu almennings til fjársekta til handa bændum sem fari fram úr greiðslumarki á mjólk sé byggð á sandi, enda byggð á misskilningi.
Bjarni Bærings segir þetta af og frá.
„Samkvæmt lögunum sem eru í gildi er leyfilegt að taka við mjólk þótt viðkomandi eigi engan kvóta. Baldur Helgi segir að það sé ólöglegt en það er ekki rétt hjá honum. Hér styðst ég við lögskýringar lögmanna sem hafa skoðað þessi búvörulög og þá á ég við lögmenn landbúnaðarráðuneytisins og fleiri.
Landbúnaðarráðherra svaraði á sínum tíma fyrirspurn bónda um þetta skriflega í bréfi. Túlkun Baldurs Helga er því röng. Ég hef hvergi séð minnst á það í lögum að afurðastöðvar sem hafa leyfi til mjólkurvinnslu séu skyldugar til að selja einhverjum út í bæ mjólkina.“