Herjólfur siglir ekki í Landeyjahöfn í dag og óvíst er með fleiri ferðir síðdegis en skipið er nú á leið frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja. Lóðsinn sat fastur um stund í innsiglingunni að Landeyjahöfn en lónar nú fyrir utan og bíður eftir því að það falli betur að.
Sérfræðingur frá Siglingastofnun er um borð í Lóðsinum sem hefur kannað aðstæður í morgun. Sveinn Rúnar Valgeirsson segir að þeir hafi farið inn og út og kennt grunns í öll skiptin en þegar Lóðsinn hafi stoppað í eitt skiptið hafi hann ákveðið að bíða eftir flóði.
Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sagði á Alþingi í morgun, að vinna yrði strax að því að fá nýtt skip til ferjusiglinga milli lands og Eyja og tryggja að samgöngurnar gangi eðlilega fyrir sig.