„Það er okkur mjög mikill fengur að fá hann í okkar raðir. Ég ber mikla virðingu fyrir honum sem einstaklingi,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, um nýbakaðan flokksbróður sinn, Þráinn Bertelsson.
„Hann hefur staðið fyrir góðum málum og er ágætur málafylgjumaður.“
- Átti þetta sér langan aðdraganda?
„Ég veit ekki hver aðdragandinn var í hans huga. Það er hann sem tekur þessa ákvörðun og við tökum honum opnum örmum.“
- Þannig að það hafa ekki verið neinar deilur innan Vinstri grænna um að hleypa honum inn í flokkinn?
„Ég hef ekki heyrt neinn einasta mann viðra aðra hugsun en jákvæða.“
Tillögugóður maður
- Í hvaða málum sérðu fyrir þér að Þráinn muni leggja lóð á vogarskálarnar?
„Ég sé fyrir mér að hann geri það í nánast öllum málum. Allsstaðar þar sem ég hef setið með Þráni í nefndum eða hlustað á hann þingi hefur hann verið tillögugóður maður.“
- Má túlka þetta sem svo að þið deilið pólitískri sýn í flestum málum?
„Ég er ekki búinn að skilgreina hans skoðanir. Ég held að við séum sammála í öllum meginmálum. Hann er félagshyggjumaður en auðvitað kunna að vera mismunandi áherslur í einstökum málum. Það er ekkert bundið við hann eða mig. Það er þannig í öllu þessu litrófi.“
- Telurðu að innkoma Þráins í stjórnina muni vega þungt?
„Ég kann ekki að meta slík lóð. Mér finnst bara fengur að því að fá hann til samstarfs við okkur,“ segir Ögmundur Jónasson.