Og skammastu þín Árni Johnsen

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Það hitnaði í þingsal Alþingis í dag þegar þingmenn ræddu störf þingsins og fundarstjórn forseta í dag. Meðal annars sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ætti að skammast sín.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, bað þingheim í heild að gæta orða sinna og virðingar Alþingis; þetta væri almenn athugasemd vegna umræðunnar í dag.    

Árni Johnsen hafði fyrr í umræðunni sakað ríkisstjórnina um stórfelld svik við hagsmuni landsins og Steingrím um að hafa sem samgönguráðherra fyrir 18 árum látið stytta Herjólf svo hægt yrði að smíða hann á Akureyri en síðan tekið tilboði frá Noregi.   

Steingrímur sagði að bein og óbein landráðabrigsl Árna væri hefðbundin umgengni hans um sannleikann. „Og skammastu þín Árni Johnsen," sagði Steingrímur.

Þá sagði hann að sorglegt væri að sitja uppi á þingi með „eintök eins og háttvirtan þingmann Þór Saari (þingmann Hreyfingarinnar) sem notar stöðu sína í ræðustól ítrekað með þeim hætti sem hann gerir."

Árni sagði að allt sem hann sagði um aðkomu  Steingríms að smíði Herjólfs fyrir 18 árum væri satt og rétt. Því mótmælti Steingrímur úr sal og sagði það allt vera lygi. Skoraði Árni þá á fjármálaráðherra að sýna fram á að hann hefði rangt fyrir sér.

Þór Saari sagði að Steingrímur hefði hreytt hrakyrðum í sig og uppnefnt. „Slíkur er nú málflutningur þessa hæstvirta ráðherra og ég tel að hann eigi skömm skilið fyrir háttsemi sína."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka