Prinsessan siglir á brott

Skemmtiferðaskipið Crown Princess.
Skemmtiferðaskipið Crown Princess.

Skemmtiferðaskipið Crown Princess lagðist aldrei við bryggju að Skarfabakka í dag líkt og til stóð. Vindáttin þótti óhagstæð og óttuðust skipsstjórnendur að það myndi ekki komast aftur af stað sökum hvassviðris, enda skipið gríðarstórt. Það heldur nú til Grænlands.

Skipið átti að leggjast að bryggju í Sundahöfn kl. 13 í dag og sigla á brott kl. 19. Vegna hvassviðris var ákveðið að bíða til kl. 15 og gera aðra tilraun þá.  Var því ákveðið að framlengja dvöl þess til kl. 21. Þar sem veðrið hefur ekkert breyst mun skipið kveðja Ísland og halda til Grænlands.

Skipið er um 113.000 tonn og um 300 metrar að lengd. Farþegar, flestir Bandaríkjamenn, eru um 3.000 talsins. Um 1.200 eru í áhöfn þess. 

Ljóst er að fjölmargir rútu- og leigubílstjórar fóru í fýluferð að Skarfabakka í dag, en fjölmargir bílar biðu eftir farþegum sem aldrei stigu á land.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert