Þeirri skoðun var lýst á Alþingi í dag, að Bretar og Hollendingar misnotuðu aðstöðu sína í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að þrýsta á Íslendinga til að samþykkja ýtrustu kröfur í Icesave-deilunni.
Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði, að fram hefði komið í Morgunblaðinu í vikunni, að Bretar og Hollendingar hefðu sýnt mikla óbilgirni á fundum um Icesave í síðustu viku. Nú standi fyrir dyrum þriðja endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands og það gæti skýrt þessa óbilgirni Breta og Hollendinga.
Sagði Lilja, að enn á ný mætti eiga von á því, að Bretar og Hollendingar notuðu stjórnarsetu sína í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að þrýsta á Íslendinga að ganga að ýtrustu kröfum sínum.
Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að stóra spurningin væri, hvort stjórnarflokkarnir ætluðu að beygja sig undir kröfur Breta og Hollendinga. Það væri ekki stefna Sjálfstæðisflokksins. „Nú hefur þegar verið boðin ríkisábyrgð og vextir. Ef það dugar ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðnum má hann fara héðan út," sagði Bjarni.
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að fjármálaráðherra hefði í Icesave-málinu gefist upp aftur og aftur og aftur og látið af einhverjum skrítnum ástæðum hagsmuni Íslands fyrir róða.
Pétur sagði, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði átt hjálpa Íslendingum en því miður hefðu Bretar og Hollendingar misnotað aðstöðu sína hjá sjóðnum til að kúga Íslendinga. Þessu ættu íslensk stjórnvöld að lýsa yfir opinberlega.
„Við eigum ekki að láta kúga okkur til að samþykkja Icesave; það er allt of dýrt verð," sagði Pétur. „Ég skora á ríkisstjórnina að standa í lappirnar og samþykkja ekki Icesave nema kannski sem okkar framlag til að halda uppi trausti á bankakerfið í Evrópu. Það yrði þá okkar velvilji og maður borgar að sjálfsögðu ekki vexti þegar maður er með velvild," sagði Pétur.