Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ fagnar því að Kristján L Möller fráfarandi samgönguráðherra hafi veitt Flugmálastjórn heimild til að hefja undirbúning og afla upplýsinga um þotuviðhaldsverkefni ECA á Keflavíkurflugvelli.
Áætluð starfsemi ECA byggist á sömu forsendu og fjöldi íslenskra fyrirtækja sem til margra ára veittu fjölda íslendinga störf á Keflavíkurflugvell. Starfsemi ECA felst í rekstri og viðhaldi vopnlausra flugvéla sem notaðar verða til æfinga erlendis og flogið af atvinnuflugmönnum, segir í tilkynningu.
„Standa vonir til þess að fyrirtækið muni skapa fjöldann allan af vellaunuðum hátæknistörfum á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysið er hvað mest auk þess að störf skapist við undirbúning og uppbyggingu.
Stjórnin ítrekar fyrri afstöðu sína þess efnis að staðan í atvinnumálum á Suðurnesjum kalli á að stjórnvöld kanni allar þær hugmyndir sem fram koma um atvinnusköpun til fulls á fordómalausan hátt áður en afstaða er tekin til þeirra," segir í tilkynningu frá Samfylkingunni í Reykjanesbæ.