Skemmtiferðaskip gat ekki lagst að bryggju

Hætt var við að láta skemmtiferðaskipið Crown Princess leggjast að bryggju í Sundahöfn í dag vegna óhagstæðrar vindáttar. Til stóð að skipið leggðist að bryggju klukkan 13 og færi klukkan 19. Skv. upplýsingum frá Faxaflóahöfnum er verið að athuga hvort skipið geti gert aðra tilraun kl. 15.

Um 2900 manns eru um borð í skipinu sem heitir Crown Princess og er 113.651 lestir að stærð.  Það er um 300 metrar að lengd og rúmlega 1.000 eru í áhöfn þess. Skipið kom hingað í byrjun ágúst og er nú í lokaferð sinni hingað í sumar.

Tugir leigubifreiða og langferðabíla bíða nú við Skarfabakka. Á þessari stundu er óvíst hvað verður. Þá liggur ekki fyrir hvort skipið muni sigla í aðra höfn takist því ekki að leggjast við Skarfabakka kl. 15. Sem stendur hefur það sett út akkeri fyrir utan Reykjavík.  

Vegna hvassviðris óttast menn að skipið geti ekki snúið sér og siglt á brott í kvöld. 

Komum skemmtiferðaskipa til landsins fer nú fækkandi. Það síðasta er væntanlegt 3. október. Það skip heitir Grand Princess og er tæplega 109 þúsund lestir að stærð.

Skemmtiferðaskipið Crown Princess.
Skemmtiferðaskipið Crown Princess.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka