Fulltrúar Vinstri grænna í ríkisstjórninni hafa brugðist því loforði sínu að skerða ekki öryrkjabætur, að mati Guðmundar Inga Kristinssonar öryrkja. Guðmundur Ingi var einn frummælenda á borgarafundi um fátækt í Ráðhúsi Reykjavíkur í kvöld. Hann gagnrýnir stjórnvöld harðlega.
„Í ræðu minni kom ég inn á skerðingu í bótum til öryrkja sem hefur verið alveg gífurleg. Ég tók sjálfan mig sem dæmi en ég lenti í umferðarslysi og átti rétt á bótum. Þær hurfu hins vegar vegna gífurlegrar skerðingar [...] Ég setti fram ákveðnar lausnir og benti til dæmis á að það væri hægt að auka kvóta, gefa smábátaveiðar frjálsar og nota veiðigjaldið til að styrkja bótakerfið þannig að lágmarksbætur verði þannig að fólk hafi í sig og á, fæði og húsnæði.“
Var gert að yfirgefa íbúðina sína
- Telurðu að stjórnvöld hafi brugðist?
„Já, alveg gjörsamlega. Ég er búinn að lifa á örorkubótum í 16 ár og lenti í þeirri skelfilegu reynslu að fá fimm daga til að yfirgefa íbúð. Við vorum sex í heimili og ég vill engum svoleiðis hluti. Staðan í þjóðfélaginu í dag er skelfileg. Það hafa margir talað við mig. Það eiga margir virkilega bágt.“
Spurning um forgangsröðun
- Nú er ljóst að það hefur þurft að skera niður. Telurðu að ríkið hafi svigrúm til að halda uppi sama velferðarstigi og fyrir hrun?
„Já. Þetta er spurning um forgangsröðun. Ef það er hægt að borga mönnum eina milljón til sjö milljónir króna í laun á mánuði, eins og skilanefndirnar bjóða nú, hlýtur að vera hægt að sjá til þess að enginn þurfi að standa í biðröð eftir mat og hvað þá veikt fólk sem neyðist í sumum tilfellum til að hafa börnin sín með sér.“
- Hvað hefðu stjórnvöld átt að gera öðruvísi?
„Þau hefðu til dæmis getað staðið við loforð sín. Ég tók þátt í mótmælunum [í Búsáhaldabyltingunni] og ræddi við fjölmarga þingmenn, sérstaklega í röðum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Þeir lofuðu mér því að bætur öryrkja yrðu ekki skertar. Mínar bætur hafa hins vegar verið skertar um 50.000 krónur á mánuði frá áramótum,“ segir Guðmundur Ingi sem kveðst geta sýnt fram á að hann sé kominn aftur til ársins 2000 þegar bætur Tryggingastofnunar ríkisins séu annars vegar.