Sýni Jenis skilning

Vefsíða Lindarinnar í Færeyjum, www.lindin.fo.
Vefsíða Lindarinnar í Færeyjum, www.lindin.fo.

„Ég tel að það sé mikilvægt að einstaklingar fylgi samvisku sinni og sannfæringu, sérstaklega þegar trúmál eru annars vegar,“ segir Sheila Fitzgerald, framkvæmdastjóri útvarpsstöðvarinnar Lindarinnar, aðspurð um mál Jenis av Rana. Jenis er vinsæll útvarpsmaður á systurstöð Lindarinnar í Færeyjum.

Að sögn Fitzgerald er rekstur stöðvarinnar aðskilinn en íslenska stöðin hefur nú 15 senda og sendir út um allan heim á netinu. Stöðvarnar séu hins vegar tengdar vinaböndum, enda með sama nafni og inntaki. Fitzgerald vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Jenis er þekktur útvarpsmaður en hann er með tvo þætti á Lindinni í Færeyjum og er sá fyrri á milli klukkan 21.00 og 22.30 á miðvikudögum og sá síðari á milli klukkan 21.00 og 01.00 á fimmtudögum.

Þættirnir eru í annarri hverri viku og tekur Jenis, sem er leiðtogi Miðflokksins, á móti innhringingum og beiðnum um bænir í þágu bágstaddra og góðra verka.

Lindin í Færeyjum á sér marga velunnara og segir Tor Arni, útvarpsstjóri Lindarinnar, í samtali við Morgunblaðið, að samkvæmt síðustu könnun sem gerð var árið 2008 hafi stöðin verið með um 37% hlustun. Fór því nærri að fjórði hver Færeyingur hlustaði reglulega á stöðina.

Tor vill að öðru leyti ekki tjá sig um mál Jenis enda vilji stöðin ekki blanda sér í pólitískar deilur.

En eins og fram hefur komið neitaði Jenis að snæða kvöldverð með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og eiginkonu hennar, Jónínu Leósdóttur, í gærkvöldi vegna andstöðu við opinber hjónabönd samkynhneigðra.

Hafa fjölmargir aðilar sent Jenis stuðningskveðjur eftir að málið komst í hámæli.

Má að lokum geta þess að þáttur Jenis, So ymisk og tó, er á dagskrá stöðvarinnar í kvöld.

Jenis av Rana.
Jenis av Rana.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka