Tekist á um hæfi setts ríkissaksóknara

Fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun
Fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Tekist var um hæfi Láru V. Júlíusdóttur, setts ríkissaksóknara, í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum sem m.a. eru ákærðir fyrir 100. gr. almennra hegningarlaga, þ.e. árás á Alþingi. Málflutningur fór fram og var lokið rétt fyrir klukkan tíu. Dómari hefur tekið málið ti úrskurðar.

Mun rólegra var yfir þinghaldinu og fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun en við undanfarnar fyrirtökur - og þingfestingu málsins. Þrátt fyrir að allt væri með kyrrum kjörum beið lögregla átekta, en þó aðeins fyrir utan dómhúsið. Ragnar Aðalsteinsson, verjandi fjögurra sakborninga, þakkaði sérstaklega fyrir þetta við upphaf þinghaldsins. Í kjölfarið reifaði hann ástæður skjólstæðinga sinna fyrir frávísunarkröfu málsins, á grundvelli vanhæfis setts ríkissaksóknara.

Helsta ástæðan er seta Láru V. Júlíusdóttur í bankaráði Seðlabanka Íslands þar sem hún gegnir formennsku. Benti Ragnar á, að Alþingi hafi kosið Láru til setunnar og sé hún því trúnaðarmaður Alþingis í bankaráðinu. Hún hafi því haft ríka ástæðu til að ákæra fyrir brot gegn 100. gr. almennra hegningarlaga, þó jafnvel ekki væri fyrir því góð og gild rök.

Ennfremur minntist Ragnar á samskipti Láru og skrifstofu Alþingis og las upp úr tölvubréfi sem ritað var til Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra. Þótti honum samskiptin helst til óformleg og á vinanótum. Eðlilegt væri því að skjólstæðingar hans efuðust um óhlutdrægi setts ríkissaksóknara þegar svo bæri undir.

Einnig benti Ragnar á að í bréfi aðstoðarsaksóknara lögreglu höfuðborgarsvæðisins til ríkissaksóknara hafi komið í ljós, að hann teldi ekki ástæðu til að ákæra á grundvelli 100. gr. Afstaða ríkissaksóknara og síðar setts ríkissaksóknara var því gjörólík þeirri.

Seðlabankinn sjálfstæður

Í ræðu Láru V. Júlíusdóttur kom m.a. fram að Seðlabankinn sé sjálfstæð stofnun og ekkert vinnusamband sé á milli bankaráðs Seðlabankans og Alþingis. Starf Láru í bankaráði sé ekki til þess fallið að að hægt sé að draga óhlutdrægni hennar í efa, enda hafi bankaráðið ekki neinna hagsmuna að gæta í málinu, og starfið feli í sér eftirlit með starfsemi bankans. Einu tengsl hennar við Alþingi eru þau að þingið hafi kosið hana til setu í ráðinu.

Varðandi kosningu hennar í bankaráð benti Lára á, að Alþingi kjósi nokkuð stóran hóp fólks í ráð og nefndir og það án þess að einhvers konar tengsl myndist við þingið. Um sé að ræða lögbundið hlutverk Alþingis.

Þá benti hún á, að það hafi ekki verið Alþingi sem hana hafi skipað sem settan ríkissaksóknara. Það hafi verið ráðherra og Alþingi hafi ekkert með slíka skipun að gera.

Hvað varðar tölvupóstinn til skrifstofu Alþingis viðurkenndi Lára, að hann hefði mátt vera formlegri, en eðli tölvupósta sé stundum þannig að þeir eru óformlegir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert