Meirihluti bæjarstjórnar Hveragerðis leggur til að hafnar verði viðræður við Orkuveituna um að Hveragerði kaupi aftur Hitaveitu Hveragerðis sem OR keypti árið 2004. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, segir að hitaveitan hafi verið vel rekin og kunnáttan til staðar í bæjarfélaginu.
Aldís, líkt og flestir aðrir fulltrúar sveitastjórna á upplýsingafundi OR í morgun, gagnrýndi hækkanir Orkuveitunnar. Aldís benti á að hækkunin bitnaði ekki aðeins á heimilum, heldur ekki síður á bæjarsjóði. Þannig myndi kostnaður við að hita upp grunnskóla bæjarsins hækka um 600-700.000 krónur á ári. „Og það er bara ein stofnun," sagði hún. Fjármunirnir til að greiða þessa hækkun kæmu aðeins úr vasa bæjarbúa.
Hveragerðisbær seldi OR Hitaveitu Hveragerðis árið 2004. Kaupverðið var um 260 milljónir og hafði þá verið dregin frá sú fjárhæð sem verja þurfti til nauðsynlegra endurbóta á dreifikerfinu. Þá þegar hafði um 40% dreifikerfisins verið endurnýjað. Aldís sagði að viðræðurnar myndu snúast um hvað væri sanngjarnt endurgjald fyrir Hitaveituna.
Tillagan verður rætt á bæjarstjórnarfundi á morgun og í ljósi þess að hún kemur frá meirihlutanum hlýtur að mega slá því nánast föstu að hún verði samþykkt.
Helgi Þór Ingason, forstjóri OR, tók vel í að hefja slíkar viðræður. Fram hefur komið að OR stefnir að því að selja eignir.