Fimm framkvæmdastjórastöður lagðar niður

Seltjarnarnes.
Seltjarnarnes. www.mats.is

Fimm stöður framkvæmdastjóra mismundi sviða Seltjarnarnesbæjar verða lagðar niður í sparnaðar- og hagræðingarskyni. Þá verður starfsemi sveitarfélagsins skipt í a.m.k. sex verkefnasvið í nýju stjórnskipulagi sem fyrsta áfanga í að taka upp flatt stjórnskipulag og verða þær stöður auglýstar.

Meirihluti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar samþykkti á bæjarstjórnarfundi  í vikunni tillögu ráðgjafafyrirtækisins Capacent um nýtt skipurit yfirstjórnar sveitarfélagsins. Fram kemur í tilkynningu, að meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn telji rétt, að við þær breyttu og erfiðu efnahagsaðstæður sem sveitarfélög á Íslandi búi nú við, sé nauðsynlegt að leita allra leiða til þess að draga úr kostnaði við rekstur bæjarfélagsins. 

Unnið hafi verið markvisst að því undanfarna mánuði, að draga úr kostnaði á ýmsum rekstrarsviðum til að mæta minnkandi tekjum, en standa þess í stað vörð um gunnrekstur eins og t.d. skóla-, umhverfis- og öldrunarmál. 

Nýtt stjórnskipulag, sem tekur formlega gildi 1. október nk., miði að því að færa uppbyggingu og virkni stjórnskipulags sveitarfélagsins nær fyrri uppbyggingu þess og því sem almennt gildi  hjá sveitarfélögum af sambærilegri stærð utan höfuðborgarsvæðisins. Sú nálgun sé mun heppilegri viðmiðun en við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem séu bæði stærri en Seltjarnarnesbær og eigi auk þess verulega stækkunarmöguleika öfugt við Seltjarnarnesbæ.  Þar búi nú hátt í 5000 manns.

Segir meirihlutinn í bæjarstjórn Seltjarnarnes, að tillagan, sem samþykkt var að stjórnkerfi Seltjarnarnesbæjar, miði að því að hafa skipulagið eins einfalt og kostur er, þ.e. að allar boðleiðir séu eins stuttar og frekast sé unnt án þess að einstökum starfsmönnum sé ætlað um of.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert