Forseti evrópska jarðskjálftaráðsins

Steinunn S. Jakobsdóttir.
Steinunn S. Jakobsdóttir. mbl.is/Ernir

Steinunn S. Jakobsdóttir jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, hefur verið kjörin forseti Evrópska jarðskjálftaráðsins (ESC), fyrst kvenna og fyrst Íslendinga. Steinunn, sem hefur setið allsherjarþing samtaka evrópskra jarðskjálftafræðinga í Montpellier í Frakklandi, segir að þetta sé mikill heiður.

Steinunn segir að þetta sé ekki aðeins heiður fyrir sig heldur einnig Ísland og þann hóp sem hún hafi starfað með á Veðurstofu Íslands. „Og þessa samstarfsmenn sem hafa verið með mér í gegnum áratugi að byggja upp jarðskjálftaeftirlitskerfi á Íslandi og önnur eftirlitskerfi.“

Þingið kemur saman annað hvert ár og mun Steinunn gegna embættinu  næstu tvö árin. Hún segir að það eigi eftir að koma í ljós hvaða verkefni hún þurfi að takast á við sem forseti samtakanna.

Formlega var tilkynnt um þetta á allsherjarþinginu í dag. „Ég var spurð hvort ég vildi gefa kost á mér í þessa kosningu. Eftir þó nokkra umhugsun ákvað ég að gera það,“ segir hún. Hún bendir á að upphaflega hafi tveir til viðbótar einnig komið til greina, en þegar gengið var til kosninga þá var Steinunn ein í framboði.

Lokadagur ráðstefnunnar, sem fór fram í Montpellier í Frakklandi, var í dag, en þingið var sett sl. mánudag. Alls eru 36 lönd í samtökunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert