Gagnlegar viðræður um makríl

Struan Stevenson.
Struan Stevenson.

Struan Stevenson, skoskur þingmaður á Evrópuþinginu, segist hafa átt gagnlegar viðræður við færeyska ráðherra í gær um makríldeiluna svonefndu. Alex Salmond, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, ítrekaði í gær að Evrópusambandið ætti að beita Íslendinga og Færeyinga þrýstingi í málinu. 

Stevenson ræddi í gær við Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja, og  Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra um makrílkvótann, sem Færeyingar gáfu einhliða út. Stevenson var í Færeyjum í tengslum við ráðstefnu um úthafsveiðar í Norðaustur-Atlantshafi. 

Deilan hófst þegar Færeyingar gáfu í sumar út 25-85 þúsund tonna makrílkvóta og Íslendingar allt að 135 þúsund tonna kvóta.

Haft er eftir Stevenson í blaðinu Shetland Marine News, að hann hafi ítrekað að finna þurfi lausn á deilunni og það muni valda  Færeyingum, Íslendingum, Evrópusambandinu og Noregi tjóni ef of mikið sé veitt úr makrílstofninum. 

Stevenson segir, að færeysku ráðherrarnir hafi lýst yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun Evrópusambandsins, að neita að ræða um makrílkvóta.  Hins vegar geti Færeyingar ekki notað það sem afsökum fyrir að halda fast við þann kvóta sem þeir gáfu út. 

Stevenson segir, að hann hafi gert ráðstafanir til að Færeyingar komi fyrir sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins á næstunni til að skýra sína hlið á málinu. Þá þurfi að rannsaka betur fullyrðingar Færeyinga um, að Noregur og Evrópusambandið stundi feluleik varðandi makrílkvótann.

Hann bætti jafnframt við, að færeyskir fiskimenn héldu því fram, að svo mikið væri af makríl í færeyskri lögsögu nú að erfitt væri að stunda veiðar án þess að makríll fylgdi með.

Stevenson hefur að undanförnu farið mikinn í breskum fjölmiðlum og hvatt til þess að Evrópusambandið setji hafnbann á Íslendinga og Færeyinga vegna makríldeilunnar. 

Gæti haft áhrif á aðildarviðræður

Í blaðinu The Press and Journal  er haft eftir Alex Salmond, forsætisráðherra Skota, að makríldeilan geti reynst Þrándur í Götu í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Karen Gillon, talsmaður skoska Verkamannaflokksins, spurði Salmond um málið á skoska þinginu í gær og sagði, að forsvarsmenn í skoskum sjávarútvegi hefðu miklar áhyggjur af framtíð úthafsveiðanna vegna óábyrgrar framkomu Íslands og Færeyja.

Salmond sagðist nýlega hafa átt viðræður við Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, og þeir hefðu ákveðið að þrýsta á framkvæmdatjórn Evrópusambandsins um að taka harða afstöðu gegn aðgerðum Íslands og Færeyja. 

„Þetta verður í brennidepli í íslensku aðildarviðræðunum," hefur blaðið eftir Salmond. 

Blaðið hefur eftir Richard Benyon, sjávarútvegsráðherra Breta, að hann hafni rökum Íslendinga fyrir að auka makrílkvóta sinn.  Segist hann hvetja Íslendinga og Færeyinga til að stuðla að raunhæfri niðurstöðu í samningaviðræðum. 

 

Alex Salmond.
Alex Salmond. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert