Lítil hætta á gjaldþroti ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar

Fjármálaráðherra segist hafa skoðað það hvort ákæra á hendur ráðherrum geti leitt til gjaldþrots ríkissjóðs, líkt og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur bent á. Hann segir að það sé sín persónulega skoðun, eftir að hafa rætt við lögfróða menn, að þessi hætta sé „hverfandi lítil“.

„Ég hef skoðað það einfaldlega vegna þess að við erum að gæta hagsmuna ríkisins á fjölmörgum sviðum,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Hann segir hins vegar ótímabært að ræða um mögulega skaðabótaábyrgð í tengslum við það að Landsdómur verði kallaður saman til að  saman til að fjalla um hugsanlega ábyrgð fjögurra fyrrverandi ráðherra.

„Mér finnst í fyrsta lagi ótímabært að vera uppi með þessa umræðu þangað til Alþingi hefur fengið tillögurnar í hendur og sjáum hvað þar er lagt til af nefndinni. Í öðru lagi er mjög vandasamt að taka þennan þátt inn í þessa umræðu. Því það er ekki nóg að segja bara A heldur verða menn líka að segja B. Myndu menn, ef einhver hætta væri talin á slíku, vilja það láta ráða niðurstöðunni í máli af þessu tagi. Að menn gerðu eitthvað annað en rök stæðu til að gera af ótta við að það kynni að hafa einhver slík neikvæð áhrif,“ segir Steingrímur.

Hann bendir á að sama umræða hafi farið af stað þegar Rannsóknarnefnd Alþingis var að störfum. „Verða ekki rannsóknarhagsmunir og leitin að sannleikanum, og það að réttlætið hafi sinn gang, að vera í forgangi.“

Þriðja hrunið

Vilhjálmur Egilsson sagði á vef Samtaka atvinnulífsins í gær, að það gæti haft í för með sér þriðja hrunið ef fyrrverandi ráðherrar yrði dregnir fyrir landsdóm og sakfelldir fyrir vanrækslu.

„Íslenska ríkið hefur í ótal tilvikum verið dæmt bótaskylt vegna þess sem úrskeiðis hefur farið í stjórnarframkvæmd eða stjórnsýslu. Þegar ráðherra, embættismanni eða starfsmanni opinberrar stofnunar hefur orðið á í messunni hefur það iðulega skapað bótaskylt tjón. Því er afar hæpið að ganga út frá að því að ríkið sé ekki ábyrgt ef saknæm vanræksla ráðherra hefur valdið öllu því mikla tjóni sem varð við bankahrunið," sagði Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert