Jóhanna Sigurðardóttir kveðst vera ánægð með fyrstu opinberu heimsókn sína sem forsætisráðherra til Færeyja. Henni þykir hins vegar miður að svo virðist sem mannréttindamál er varði réttindi samkynhneigðra séu ekki í heiðri höfð í Færeyjum.
„Mér þykir það auðvitað miður [...] að mannréttindamál séu þarna, að því er þetta mál varðar, fótum troðin. Mér þykir það miður fyrir færeysku þjóðina. Ef að heimsókn mín þarna getur orðið til þess að koma á einhverri jákvæðri hreyfingu af stað í því máli þá fagna ég auðvitað því mjög. En það er auðvitað sorglegt að mannréttindi fólks í þessum málum séu ekki í heiðri höfð eins og þarna kom náttúrulega í ljós,“ segir Jóhanna.
„Móttökurnar voru mjög góðar og ég var mjög ánægð með það að þetta var mín fyrsta opinbera heimsókn að fara til Færeyja vegna þess að Færeyingar hafa sýnt okkur einstaklega mikið vinarþel í þessum erfiðleikum sem við höfum verið í. Þess vegna var ég mjög ánægð með það og líka vegna þess að samskipti milli þjóðanna eru einstaklega góð á mörgum sviðum,“ sagði Jóhanna ennfremur við blaðamenn að loknum ríkisstjórnarfundi.