Ólíklegt er talið að Orkustofnun geri athugasemd við þá ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að hækka verð á dreifingu rafmagns um 40%.
Ívar Þorsteinsson, verkefnisstjóri hjá Orkustofnun, segir að stofnunin hafi ekki lokið endanlegri umfjöllun um beiðni OR um hækkun. Flest bendi hins vegar til að Orkuveitan sé innan þeirrar viðmunarmarka sem Orkustofnun miðar við varðandi verð fyrir dreifingu rafmagns.
Ívar segir að hækkunin geti ekki tekið gildi 1. október eins og kom fram í tilkynningu Orkuveitunnar. Lögum samkvæmt þurfi að tilkynna hækkun á raforkudreifingu með tveggja mánaða fyrirvara.
Norðurorka hefur óskað eftir hækkun á verði raforkudreifingar um 4%. Franz Gíslason, forstjóri Norðurorku, segir að með þessu sé fyrirtækið að taka tillit til verðbólgu síðasta árs. Fyrirtækið hækkaði síðast gjaldskrá um síðustu áramót. Hækkunin mun væntanlega taka gildi 1. nóvember.